1. Þróun gullverðs í fortíðinni

1. Þróun gullverðs í fortíðinni

Nærmynd af gullstöng með línuriti í bakgrunni.

Við skulum nú líta á hvernig gullverð hefur þróast sögulega og hvernig verðið hefur gjarnan náð hámarki á krepputímum.


Hefðbundið er að líta á gull sem örugga höfn, skjól í óveðri, tryggan geymslustað þegar styrjaldir, upplausn, hungursneyð eða drepsóttir virðast yfirvofandi.

Hámarksverð á krepputímum

Förum nú aftur til ársins 1980. Bandaríkjastjórn engdist yfir gíslamálinu í Íran, ný verðbólgualda flóði yfir heimsbyggðina og spennan milli austurs og vesturs magnaðist vegna nýrra kjarnorkuvopna sem verið var að setja upp beggja vegna í Evrópu.


Kaupverð á gulli náði 800 dollurum á únsu. Hefðir þú keypt á þessum tíma, værir þú enn í tapi í dollurum en að sjálfsögðu í hagnaði í krónum, þrátt fyrir að gangverð á gulli sé nú komið yfir 2.000 dollara á únsu. Ástæðan er sú að dollarinn var talsvert meira virði fyrir 34 árum en hann er í dag. Ef leiðrétt er fyrir verðbólgu, samsvarar hámarkið sem verðið náði í janúar 1980 u.þ.b. 2.400 dollurum á núvirði.

Verðfall á friðartímum

Árþúsundamótin eru ágætt dæmi um slíka tíma. Kalda stríðið var búið, seðlabankar virtust hafa uppgötvað leyndardóminn við að reka „Gullbrár-hagkerfi“ – ekki of heitt og ekki of kalt – og internetið gaf fyrirheit um nýja og spennandi atvinnuvegi og þjónustur.


Gullverð skrapaði botninn. Árið 1999 var meðalverð á gulli $278,98 á únsu, árið 2000 var það $279,11 og 2001 féll það aftur niður í $271,04.


Það vildi næstum enginn kaupa gull, tryggingu gegn ógæfu sem nú var talin tilheyra fortíðinni. Þó var einhver enn að kaupa gull, því 2002 var meðalverðið aftur komið yfir $300 á únsu, það náði hæst $400 árið 2004 og $600 árið 2006.


Svo kom fjármálakreppan mikla og fjárfestinga (bullion)-gull komst heldur betur í tísku aftur – kaupverð á gulli var að meðaltali vel yfir $900 á únsu 2009 og 2010 var það komið yfir $1.200. Á síðustu 50 árum var kaupverð á gulli á stöðugri uppleið frá 1964 til 1980, það fór síðan stöðugt lækkandi fram á fyrstu ár þessarar aldar og svo kom aftur uppsveifla. Af hverju?


Þar er fyrst að nefna að fram til 1971 reyndu stjórnvöld um allan heim að hafa hemil á gullverði í viðleitni sinni til að koma á stöðugleika á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Þegar þessu taumhaldi var hætt, leystist mikil uppsöfnuð eftirspurn úr læðingi.


Verðbólga studdi líka við verðið, því það þurfti sífellt fleiri krónur og dollara til að kaupa sama magn af gulli. Og eins og við höfum séð, hefur ótti við átök og upplausn þau áhrif að fleiri vilja kaupa gull vegna þess að stofnanirnar sem halda uppi pappírspeningakerfi virðast í hættu.


Þegar hið gagnstæða er hins vegar upp á teningnum – lág verðbólga, friður og stöðugleiki – verður gull ekki eins eftirsóknarvert og þá fellur verðið mjög oft.

Share by: