2. Hvað gerir málm að eðalmálmi?

Gull, silfur og platína teljast til eðalmálma, en hvaða eiginleikar gera þá svona sérstaka?
Þekktustu eðalmálmarnir eru auðvitað gull og silfur, sem hefur hvort tveggja verið notað sem gjaldmiðill og efniviður í listmuni frá því áður en sögur hófust. Platínuhópurinn í lotukerfi frumefnanna (platínan sjálf, iridín (Ir), osmín (Os), palladín (Pd), ródín (Rh) og rúþen (Ru)) eru þó líka mikilvægir eðalmálmar. Platína og palladín hafa hlotið alþjóðlega gjaldmiðilskóða sem ISO úthlutar, rétt eins og gull og silfur, en í hverju felst sérstaða þessara málma? Er það einfaldlega fágæti þeirra, fegurð og notagildi?
Skilgreining eðalmálma
Eðalmálmar eru skilgreindir sem sjaldgæfir málmar sem koma fyrir í náttúrunni og eru mjög eftirsóttir af efnahagslegum ástæðum, en það er býsna lítilfjörleg leið til að lýsa þeim. Eðalmálmar hafa haft afdrifarík áhrif á mannkynssöguna og af þeim er sprottin sjálf hugmyndin um peninga, auk ótal hefða og venja sem enn setja mark sitt á menningu heimsins.
Kannski er nær að segja að eðalmálmur sé málmur sem er álitinn verðmætur og eftirsóknarverður, ekki aðeins vegna þess að hann er notaður sem alþjóðlega viðurkennd verðeining heldur er hann líka efni sem hægt er að gera enn verðmætara með því að gera úr því listmuni, skartgripi og jafnvel slegna mynt eða stangir.
Það eru þrjú atriði sem oft er vísað til þegar rætt er um eðalmálma.
- Hann verður að vera málmkennt frumefni sem fyrirfinnst í náttúrunni
Gull, silfur, platína og jafnvel hinir óvenjulegu eðalmálmar eins og osmín eru allt málmar (í skilningi efnafræðinnar) og finnast í náttúrunni. Óstöðug frumefni sem einungis er hægt að skapa á rannsóknastofu (yfirleitt með því að láta önnur frumefni hvarfast eða verða fyrir geislun) geta aldrei talist til eðalmálma.
2. Hann verður að vera fágætur
Magn málmsins í jarðskorpunni verður að vera býsna lítið. Kopar, sem hefur frá fornu fari verið notaður í mynt og skartgripi, er allt of algengur til að geta talist eðalmálmur. Áður fyrr var ál talið til eðalmálma vegna þess að það var næstum ómögulegt að fá það hreint. Nútíma framleiðsluaðferðir hafa hins vegar fellt það niður í stöðu algengs málms.
3.Hann verður að vera verðmætur
Málmur kann að standast bæði fyrri prófin, en ef engan langar til að eignast hann, þá telst hann ekki með. Gull og silfur eru afar eftirsótt, bæði sem gjaldmiðill, stangamálmur og efniviður í listmuni, en eru að auki bráðnauðsynleg í raftækjaiðnaði. Og þótt nokkuð af platínu og palladíni sé notað til fjárfestinga og í skartgripi, tekur bílaiðnaðurinn til sín meginhlutann af þessum málmum til að framleiða hvarfakúta.
Málmur verður að uppfylla öll þrjú skilyrðin til að teljast eðalmálmur, og að þeim uppfylltum eru sumir þeirra jafnvel enn dýrmætari en aðrir. Þú getur kynnst því vel hversu dýr eðalmálmur er með því að bera hann saman við aðra á alþjóðlegum mörkuðum.
Þeir dýrustu eru bæði afar fágætir og um leið mjög hagnýtir. Gull og platína berjast um toppsætið í þessu tilliti. Silfur kann að nýtast meira í iðnaði en það er ekki alveg eins fágætt og því ekki eins dýrt. Ródín, iridín og rúþen eru kannski fágætustu málmarnir, heildarmagn þeirra er u.þ.b. 1/5 á við platínu. Söluverð á ródíni er þó venjulega heldur lægra en á platínu og hinir málmarnir eru jafnvel enn ódýrari, einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki eins gagnlegir.
Eðalmálmar í ólíkum menningarsamfélögum
Sérhvert menningarsamfélag hefur sín einstöku tengsl við málma eins og gull silfur, platínu, palladín og jafnvel brons eða kopar. Sum þeirra leggja mest upp úr að málmur sé sjaldgæfur, önnur meta fegurðina mest og enn önnur setja hagnýtis sjónarmið efst (hvort sem það snýst um að búa til verkfæri, rafeindatæki eða list)
2. Kína
Kína á sér einhverja lengstu og ítarlegustu ritaða sögu í heiminum í dag, og sögurnar sem þar eru sagðar minnast allar á gull, silfur og kopar. Gull er táknmynd auðlegðar og gæfu í Kína og gjafir úr gulli (og í seinni tíð gulllitaðar) hafa ætíð verði kennimark hátt settra einstaklinga.
Þótt undarlegt megi virðast, byrjuðu Kínverjar ekki að slá mynt úr eðalmálmum fyrr en 1890. Fram að því höfðu gull, silfur og fleiri málmar verið notaðir sem færanlegur auður í formi silfur- og gullstanga. Mynt til daglegra nota var oftast gerð úr ódýrum málmum.
3. Indland
Eðalmálmar eiga sér líka langa og helga sögu í Indlandi en þar er gull sérstaklega mikils metið. Það er táknmynd bæði fegurðar og hreinleika og er nátengt guðum hindúa. Meira að segja er hægt að þýða nafnið á einum af sköpunarguðum hindúa, Brahma, sem ,gull sem aldrei eyðistʻ eða ,afkvæmi gullsʻ.
Gull var einnig helsti greiðslumiðill milli þeirra fjölmörgu konunga, keisara og ríkisstjórna sem hafa deilt með sér þessu meginlandi. Stundum var það, ásamt landi, talið eina eignin sem hélt verðmæti sínu. Heimanmundur í gulli er enn þann dag í dag óaðskiljanlegur hluti af hefðbundnum indverskum brúðkaupssiðum.
Algilt aðdráttarafl gulls
Gull hefur heillað fólk um allan heim alveg frá því að sögur hófust. Í elstu heimildum er vísað til þess að gull sé eftirsótt bæði sem listaverk og sem eins konar alþjóðagjaldmiðill. Gulur litur málmsins hefur alltaf skipt meira máli en andlitsmynd konungs sem var þrykkt á það.
Nú á dögum er gull jafn eftirsótt og nokkru sinni, og verðmæti þess sem alþjóðlegrar tjáningar auðlegðar er í fullu gildi. Margir safna gullmyntum og gullstöngum í fjárfestingarskyni og til að varðveita auðæfi sín. Þótt menn veigri sér við að eignast gullið sjálft, eru í boði stafrænar vörur með efnislegan bakhjarl sem einnig halda verðgildi sínu í krafti tengingar við gull sem geymt er í öryggishvelfingum. En þrátt fyrir það virðist eignarhald á gullinu sjálfu – og möguleikinn á að snerta það og handleika, jafnvel frelsið til að vernda það og flytja úr einum stað í annan – aldrei missa aðdráttarafl sitt.