Stýring fjárfestinga felst ekki bara í því að vita hvenær á að kaupa; það er ekki síður mikilvægt að vita hvenær á að selja.
Ef þú hefur fjárfest í eðalmálmum eins og gulli, silfri eða platínu, þá kemur væntanlega einhvern tíma að því að þú hefur hug á að selja þá. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, en hjá flestum er algengust þörf fyrir að losa um fjármuni sem eru bundnir í eðalmálmi svo hægt verði að nota þá til annars.
Þegar kemur að sölu eru ýmsir ólíkir kostir í boði, allt eftir hvernig þú hefur farið að í fjárfestingu í eðalmálmum. Ef þú átt gull, silfur eða platínu í geymslu hjá söluaðila eins og Auvesta Edelmettal AG, er hægt að selja einfaldlega með því að senda inn sölubeiðni, í gegnum netaðgang þinn.
Ef þú hefur hins vegar tekið myntina þína eða stangirnar í þína vörslu, eða jafnvel ef þú vilt selja skartgripi eða brotamálm, þarf að taka fleiri skref til að selja og velta ýmsu fyrir sér.
Gullmarkaðurinn kaupir til að mynda aðeins gull sem keypt var í gegnum vefverslun okkar og viðkomandi þarf að framvísa kvittun um þau kaup svo að hann geti selt eðalmálma sína til okkar.
Rétt eins og það eru margir kostir í boði þegar kaupa á eðalmálma, þá eru einnig margar leiðir þegar að því kemur að selja þá. Eins og áður var nefnt, eru eðalmálmasalar eins og Gullmarkaðurinn og Auvesta reiðubúnir að kaupa af þér gull, silfur og platínu á verði sem byggist á ákveðnu hlutfalli af verðgildi eðalmálmsins sem hluturinn inniheldur. Þetta hlutfall er breytilegt og veltur á kaupandanum, svo það borgar sig að leita tilboða hjá ýmsum aðilum. Virtir eðalmálmasalar eins og Auvesta bjóða venjulega verð sem eru mjög nálægt verði viðkomandi eðalmálms á hverjum tíma, jafnvel allt upp í 98-100,5%. Það merkir einfaldlega að ef gullverð væri EUR 2.000 á únsuna og hluturinn sem þú vildir selja innihéldi eina únsu gulls, yrði þér boðið verð sem næmi frá 98% af gullverðinu (EUR 1.960 - 2010) fyrir hlutinn. Hér getur tímasetning skipt miklu, því hærra sem verð eðalmálmsins er, því hærra verð er líklegt að þú fáir.
Þú hefur kannski veitt því athygli að í dæminu að ofan var sagt að hluturinn innihéldi eina únsu gulls, en ekki að hann vægi eina únsu. Þetta er mikilvægt atriði því í mörgum tilvikum er hluturinn sem selja á ekki úr hreinu gulli, silfri eða platínu. Sumar myntir, skartgripir og jafnvel stangir innihalda aðra málma, eins og kopar ef um gullgrip er að ræða. Þetta þýðir að þótt þyngd hlutarins reynist svo og svo mikil þegar hann er vigtaður, er einungis með náinni skoðun hægt að komast að því hve hann inniheldur mikið af eðalmálmi. Þar sem sumir hlutir eru ekki úr hreinum eðalmálmi munt þú aðeins fá verðtilboð í eðalmálminn sem hluturinn inniheldur, ekki aðra málma sem í honum eru. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um skartgripi er að ræða, en sumar myntir, t.d. The Sovereign eða Krugerrand eru heldur ekki úr hreinu gulli.
En þótt við beinum yfirleitt sjónum að stundarverðinu á gulli og því hvaða áhrif salan hefði á virði eignasafnsins, er einnig vert að huga að því að sumir eðalmálmar eru ekki eingöngu seldir á grundvelli verðgildis eðalmálmsins. Ef mynt, eða jafnvel stöng, er mjög eftirsótt, gæti hún verið meira virði en eðalmálmurinn sem í henni er – ekki síst ef kaupandinn er áhugasamur safnari. Það gæti því verið gagnlegt að fá óháð verðmat á hlutnum hjá myntkaupmanni, ekki síður en frá eðalmálmasala, ef vera kynni að matið yrði frábrugðið.
Þegar þú ert búin(n) að ákveða að selja hlutina þína, eða jafnvel þótt þú viljir bara forvitnast um verðgildi þeirra, ætti fyrsti viðkomustaðurinn að vera virtur eðalmálmasali. Þeir geta leiðbeint þér, ekki aðeins um málminnihaldið heldur líka um það hvers virði hluturinn væri ef hann væri seldur í dag. Eins og fyrr var nefnt, væri ráðlegt að halda sig við virta aðila með þekkta viðskiptasögu, og þar geta umsagnir og orðspor oft komið að gagni í leitinni. Sagt er að skartgripasalar og fyrirtæki sem bjóða „reiðufé fyrir gull“ bjóði lægra verð en gamalgrónari aðilar, svo þú þarft að vera viss áður en þú ákveður að selja.
Hjá Auvesta þarf ekki að sanna neitt gullinnihald vegna þess að verðmætin eru í vörslu Auvesta, en hjá flestum aðilum, fer söluferlið einfaldlega þannig fram að óskað er eftir upphafstilboði, sem gæti krafist ljósmynda eða annarra gagna, og síðan ákveður þú annað hvort að taka tilboðinu eða hafna því. Ef þú lætur slag standa, eru hlutirnir yfirleitt afhentir kaupandanum, annað hvort í eigin persónu eða með pósti. Þegar kaupandinn fær hlutinn í hendur, er kannað hvort hluturinn sé ekta og hann vigtaður á nákvæmri vigt. Ef verð eðalmálmsins hefur breyst frá því að óskað var eftir upphaflega tilboðinu, er tilboðið ef til vill endurskoðað. Þú hefur þó aftur tækifæri til að taka endurskoðuðu tilboði eða fá hlutinn endursendan. Ef þú tekur lokatilboðinu, er hluturinn talinn seldur og peningarnir yfirfærðir á reikning þinn.
Þótt Gullmarkaðurinn taki ekki við skartgripum eða brotamálmi, eru fjölmargir aðrir virtir kaupmenn sem gera það, en þú skalt kanna málið rækilega áður en kaupin eru gerð.
Ef efnislegi hluturinn þinn er geymdur hjá Auvesta, er ferlið svolítið frábrugðið þar sem hluturinn er þá þegar í geymslu hjá þeim og þeir vita um hreinleika hans og uppruna. Sala hluta sem eru í vörslu Auvesta er því fljótlegri og felst einfaldlega í því að óska eftir tilboði í gegnum netaðgang þinn. Þú færð þá tilboð sem þú annað hvort tekur eða hafnar og peningarnir eru millifærðir um leið og salan er gengin í gegn.