Til þess að reyna að svara þessari spurningu, sem er nokkuð snúin, þarft þú að taka afstöðu til fjögurra lykilþátta:
Sögulega séð, hækkar gullverð hratt þegar einhver óvæntur eða lítt fyrirsjáanlegur atburður á sér stað, sem eykur óvissu um framtíðarhorfur í efnahags- eða stjórnmálum. Þetta gæti verið eitthvað jafn þýðingarmikið og að vopnuð átök eða stríð brytist úr, en það gæti líka verið eitthvað veigaminna og skammvinnara eins og óvænt úrslit kosninga eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Óvæntir atburðir hafa oft óbein áhrif á fjármálamarkaði, sem aftur geta haft áhrif á gull.
Ef eitthvað ófyrirséð gerist og verðgildi annarra fjárfestinga eins og hlutabréfa byrjar strax að falla, getur svo farið að margir fjárfestar ákveði að selja bréfin eins hratt og mögulegt er og snúa sér að gulli. Höfuðmarkmið þeirra er þá að tryggja að þeir haldi áfram einhverjum verðmætum þegar einhvers konar niðurstaða fæst í atburðarásina. Þetta leiðir oft til hækkunar á gullverði því árleg gullvinnsla er takmörkuð og ekki er unnt að auka vinnsluna með hraði til að bregðast við verðbreytingum.
Þegar einungis er um að ræða óvissu í heimsmálum og á mörkuðum, hækkar gullverðið hins vegar yfirleitt hægar. Ef enginn veit fyrir víst hvort öruggur hagnaður fæst af fjárfestingum í fyrirtækjum, vörum eða landi, gætu fjárfestar ákveðið að auka vægi fjárfestinga sem litið er á sem „örugga höfn“, til að mynda í gulli. Þetta getur síðan leitt til verðhækkana á þessum „öruggu fjárfestingarhöfnum“, en það gerist frekar smátt og smátt.
Á hinn bóginn er hafa vissa og velmegun (á heimsvísu) tilhneigingu til að þrýsta gullverði niður. Fyrstu ár þessarar aldar mætti kalla velmektarár í heiminum. Það geisuðu engar stórstyrjaldir og það var tiltölulega lítið af minni átökum. Fjárfestum buðust ótal leiðir til að bæta við eignasöfn sín og gátu verið nokkuð vissir um góða ávöxtun. Afleiðingin varð sú að fjárfestar beindu tiltölulega litlu af eignasafni sínu í það sem öruggast var, og gullverð var þá lægra en það er í dag.
Það eru ólíkar ástæður fyrir því að fólk fjárfestir í eðalmálmum eða öðrum tryggum eignum, og ólíkar væntingar um afraksturinn. Það er ekki hægt að fullyrða að þar sé ein stefna „betri“ en önnur. Áður en þú ákveður að fjárfesta í gulli þarft þú að gera upp við þig hverju þú vonast eftir að ná fram með því.
Það er einkum tvennt sem fólk nefnir sem hvata til að fjárfesta í tryggum verðmætum eins og gulli – öryggi og hagnaður.
Sumir fjárfestar kjósa að fjárfesta í gulli og öðrum tryggum verðmætum til þess að nýta sér verðsveiflur til skamms tíma. Þessi aðferð líkist meira hefðbundnum hlutabréfaviðskiptum – aðalatriðið er að „kaupa á lágu, selja á háu“. Hins vegar krefst það mikillar sérfræðiþekkingar, dómgreindar og heppni að skapa sér hagnaðartækifæri.
Á endanum krefst þessi aðferð þess að þú getir dæmt um það nákvæmlega hvenær gullverð er líklegt til að hækka og hversu lengi slíkt ástand varir. Hefðir þú átt kristalskúlu og hefðir séð fyrir efnahagshrunið í apríl 2001, hefðir þú getað keypt gull fyrir innan við kr 23.700 á troyes-únsuna (31,1 g). Hefðir þú nú líka vitað fyrir hvenær verðið myndi ná hámarki, hefðir þú getað selt allt gullið á u.þ.b. kr. 217.150 fyrir hverja troyes-únsu í ágúst 2011, og meira en nífaldað upphaflegu fjárfestinguna.
Vandinn við þessa stefnu er sá að kristalskúlur eru með öllu ófáanlegar í samfélagi nútímans. Jafnvel færustu sérfræðingar með áratuga skólagöngu og reynslu að baki í gullviðskiptum hafa náð heldur döprum árangri í að velja þetta hárrétta augnablik.
Margir myndu stinga upp á að lykillinn að því að kaupa fyrir hagnaðarvon sé ekki aðeins að kaupa þegar verðin eru lág, heldur þegar þau eru líkleg til að hækka. Ef þú ert viss um að húsnæðisbólan sé að springa á ný eða að samskipti NATO og Rússlands séu í þann veginn að versna stórlega, gæti það verið góður tími. En svo gæti líka verið að svo sé ekki. Áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu er ekki úr vegi að sækja sér ráðgjöf í fjármálum, lögfræði, skattamálum og bókhaldi. Það þarf að íhuga rækilega áhættuna við að fjárfesta í gulli og taka þá með í reikninginn eigin fjárhagslegar þarfir og kringumstæður.
Það er eins og sagt er, „ekki leggja óðalið undir nema þú hafir efni á því að missa óðalið“
Sögulega séð hefur gullverð tilhneigingu til að breytast óháð og oft gagnstætt verðþróun annarra eigna. Ef verðgildi allra þinna hlutabréfa, fasteigna og annarra fjárfestinga er á niðurleið, má því búast við því að gullverð þróist ekki á sama veg, það gæti jafnvel hækkað og bætt þannig upp nokkuð af tapinu. Áþreifanlegu gulli í þinni vörslu fylgir heldur engin mótaðilaáhætta (ólíkt sparnaðarreikningi í banka sem gæti fallið eða hlutabréfum í félagi sem gæti orðið gjaldþrota) og því má líta svo á að það sé ennþá öruggara, komi til efnahagslegra hamfara.
Af þessari ástæðu hefur það verið talin „örugg“ fjárfestingarstefna að binda hluta af eignasafni í gulli, verðgildi þess gæti aukist, fari svo að efnahagsástandið verði til þess að aðrar fjárfestingar falla í verði. Samkvæmt þessu sjónarmiði ert þú ekki að fjárfesta í gulli til að auka verðgildi eignasafnsins þíns, heldur að verjast skyndilegu tapi í öðrum hlutum eignasafnsins. Ýmis líkön og greiningar hafa sýnt fram á að þetta gefur betri langtímaávöxtun fyrir fjárfesta, samanborið við eignasafn sem ekki inniheldur gull.
Af þessum sökum mæla margir álitsgjafar um markaði, þar á meðal Alþjóðlega gullráðið (World Gold Council), með því að gulleign sem nemur allt að 10% og jafnvel 20% af fjárfestingasafni geti varið safnið og bætt árangur. Það ræðst af áhættu safnsins og á Íslandi þarf líka að huga að gjaldmiðlaáhættu þar sem íslenska krónan er auðvitað ekki mjög stór eða sterkur gjaldmiðill.
Hér er tímasetningin ekki eins mikilvæg og þegar stefnt er að skammtímahagnaði, því þetta er stefna til lengri tíma. Við mælum með að litið sé til 5 til 15 ára og jafnvel lengur þegar sparað er í gulli. Ef þú ert sammála þeim sjónarmiðum sem sett eru fram hér að framan, um gildi gulls sem hluta af eignasafni til að verjast áföllum sem aðrar fjárfestingar kunna að verða fyrir, þá er hvaða tími sem er góður tími til að kaupa gull.
En eins og fyrr var nefnt er ekki úr vegi að sækja sér fjármála-, lögfræði-, skatta- og bókhaldsráðgjöf áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Það þarf að íhuga rækilega áhættuna við að fjárfesta í gulli og taka þá með í reikninginn eigin fjárhagslegar þarfir og kringumstæður.