3. Að fjárfesta í fjárfestinga (bullion)-mynt

3. Að fjárfesta í fjárfestinga (bullion)-mynt

Nærmynd af mynt með orðinu gulli 10 astadur skrifað utan um

Ástæður þess að fólk kýs að fjárfesta í fjárfestinga (bullion)-mynt frekar en öðrum fjárfestingarkostum í eðalmálmum og einstakir kostir þess að gera það


Hafir þú ákveðið að byrja aða fjárfesta í eðalmálmum, gæti næsta skref verið að velta því fyrir þér hvort þú vilt fjárfesta í mynt, stöngum eða stafrænum eðalmálmum. Það er vegna þess að gull, silfur og platína fást yfirleitt í öllum þessum formum, og þótt sjálfur málmurinn sé sá sami, kjósa flestir fjárfestar eitthvert þessara forma fram yfir hin.


Áður fyrr var munurinn á mynt og málmstöngum skýrari, þar sem hefðbundið er að á myntinni sé miklu fíngerðara og fallegra myndefni en á málmstöngunum, sem voru látlausari. Á síðustu árum hefur þó verið hægt að fá stangir sem eru fagurlega skreyttar með myndefni áþekku því sem gjarnan er á sleginni bullion-mynt. 


Með þetta í huga, er í þessum kafla litið á nokkrar af ástæðunum fyrir því að fólk kýs að fjárfesta í mynt fremur en að velja aðra fjárfestingarkosti í eðalmálmum og nokkra af þeim einstöku kostum sem því fylgja.

Skattur af söluhagnaði

Það er mikill munur á skattalegri meðferð á fjárfestingamálmum á Íslandi og flestum löndum Evrópu.


Á Íslandi er ekki gerður greinamunur á fjárfestingagulli eða t.d. skartgripagulli, silfri eða platínu. Samkvæmt íslenskum skattalögum eru þessir málmar flokkaðir sem lausafé, þegar um einstaklinga er að ræða, og skiptir þá engu hvort um mynt eða stangir sé að ræða. Einstaklingar greiða fjármagnstekjuskatt af hagnaði sem myndast við sölu lausafjár ef lausafé er keypt í hagnaðarskyni en ef ekki er sala lausafjár skattfrjáls. Ef kaup og sala lausafjár er í svo miklu umfangi að um er að ræða atvinnurekstur er hins vegar greiddur almennur tekjuskattur af söluhagnaði en þá er til staðar réttur til frádráttar rekstrarkostnaðar. Hjá fyrirtækjum, þá yrðu þessar eignir eignfærðar á efnahagsreikning á markaðsvirði. Fyrirtæki greiða ekki fjármagnstekjuskatt. Þau greiða tekjuskatt fyrirtækja en hafa að sama skapi rétt til frádráttar rekstrarkostnaðar.


Víða erlendis þá eru augljósir kostir þess að fjárfesta í bullion-mynt er sá að allt sem telst lögmætur gjaldmiðill er undanþegið skatti á söluhagnað fyrir íbúa þess ríkis.


Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á hvers konar ávinning eða hagnað sem fæst með því að selja eða losa sig við eign. Greiða þarf skattinn af öllum söluhagnaði af hverju því sem skattayfirvöld flokka sem skattskylda eign. Langflestar eignir sem þú gætir kosið að fjárfesta í eða selja falla í þennan flokk. Það getur átt við verðbréf, hlutdeildarskírteini í sjóðum þar með talið í gullsjóðum (ETF), bankainnistæður og sölu fasteignar sem ekki er þitt aðalheimili.


Ef þú keyptir t.d. hlutabréf fyrir kr 1.000.000 og seldir þau fyrir kr 1.500.000 er „hagnaðurinn“ upp á kr. 500.000 skattskyldur að teknu tilliti til skattleysismarka ef þau eiga við.


Líkt og komið hefur fram getur skattlagning vegna sölu einstaklinga á lausafé hér á landi flokkast í þrennt, þ.e.a.s. skattfrjáls sala (0%), sala sem myndar stofn til fjármagnstekjuskatts (22%) og sala sem telst hluti atvinnurekstrar (allt að 46% með rétti til frádráttar rekstrarkostnaðar). Hver sá sem fjárfestir verður að taka afstöðu til þess undir hvaða flokk hann fellur m.t.t. tilgangs með

kaupum, umfangi o.fl. atriða. Í vafatilvikum væri rétt að óska eftir ráðgjöf eða leiðbeiningum frá skattyfirvöldum.

Virðisaukaskattur (VAT) á bullion-mynt

Á Íslandi bera fjárfestingamálmar 24% virðisaukaskatt alveg eins og skartgripir. Það er enginn munur gerður á eðalmálminnihaldi samkvæmt íslenskum skattyfirvöldum. Ísland er sennilega eina eða a.m.k. eitt af fáum löndum í Evrópu sem gerir ekki þennan greinarmun. Evrópusambandslöndin innheimta ekki virðisaukaskatt á fjárfestingargulli hvort sem um mynt eða stangir er að ræða en á silfri, platínu og palladíum er innheimtur virðisaukaskattur.  Gull er eini málmurinn sem er undanþeginn virðisaukaskatti ef það er af tilgreindum hreinleika í formi stanga eða mynta.


Þannig að þegar gull og aðrir eðalmálmar eru keyptir í gegnum vefverslun Gullmarkaðarins þá er alltaf innheimtur virðisaukaskattur þegar afhending er á Íslandi og er hann greiddur við pöntun. Þegar gull sem keypt er í gegnum Auvesta Edelmettal AG þá greiðist virðisaukaskattur við landamæri Íslands, þegar og ef viðkomandi lætur senda sér gullið eða sækir og flytur það sjálfur til landsins.


Víða erlendis er önnur ástæða þess að margir kjósa að fjárfesta í mynt sú að gullmyntir eru undanþegnar virðisaukaskatti. Sá skattur er innheimtur af kaupum á flestum eignum og varningi, en í yfir 20 ár  hafa fjárfestingar í gulli (mynt, stöngum eða stafrænu) verið undanþegnar virðisauka-eða söluskatti  víðast hvar í Evrópu. Hins vegar eru aðrir eðalmálmar, þar á meðal silfur og platína, virðisauka-eða söluskattskyldir, en skatthlutfallið er misjafnt eftir löndum.



Svo gæti virst að þessi 24% skattur væri ókostur við silfur og platínu, einkum í samanburði við gull. Hins vegar getur verð á öllum eðalmálmum sveiflast umtalsvert, svo oft nær hagnaðurinn að bæta upp þessi 24% og vel það. Svo dæmi sé tekið, hækkaði silfur um 47% ársbyrjun 2020 og fram í ársbyrjun 2021 –Jafnvel þótt upphaflegi virðisaukaskatturinn sé tekinn með í reikninginn, telst þetta býsna góð ávöxtun. Að sjálfsögðu getur þetta líka snúist við en verð á silfri hefur sveiflast mjög á undanförnum árum. 

Stærðir bullion-mynta

Enn eitt sem gerir myntir spennandi er að þær fást í mismunandi vigt og ólíkum stærðum. Þetta höfðar til fjárfesta því byrjunarþröskuldurinn er lægri en þegar um stangir er að ræða, því minni myntirnar eru eðlilega ódýrari en stærri einingar. Úrvalið af ólíkum stærðum gerir það að verkum að fólk getur byrjað að fjárfesta í eðalmálmum með tiltölulega litlum tilkostnaði en fengið samt eitthvað áþreifanlegt sem hægt er að halda á. Til að mynda verða fáanlegar bullion-myntir frá Gullmarkaðinum í stærðum allt frá 1/10 úr únsu (aðeins 16,5 mm í þvermál) upp í þá stærstu, tíu únsu silfurmynt, sem er hvorki meira né minna en 89 mm í þvermál – það er næstum 450% stærri.



Úrvalið af stærðum kemur sér vel af mörgum ástæðum, en fyrst og fremst þegar að því kemur að selja eðalmálminn. Þá er er hægt að selja hluta af eigninni, ef þú átt margar myntir, í stað þess að þurfa að selja heila stöng. Þess vegna kjósa margir að kaupa margar myntir í rúllum. Myntir fást í stykkjatali eða í rúllum með 10-25 myntum (eftir stærð og hver málmurinn er). Þótt myntrúlla hafi að geyma áþekkt magn af málmi og stöng, getur þú valið að selja fáeinar myntir til að losa lausafé. Málmstöng verður þú hins vegar að selja í heilu lagi.

Hönnun og útlit myntar

Ein helsta ástæðan fyrir því að fólk velur að fjárfesta í bullion-mynt fremur en stangamálmi er auðvitað hönnun og útlit myntarinnar. Myntir frá hinum ýmsu ríksimyntum eins og t.d. Konunuglegu myntsláttunni í Bretlandi hafa notið viðurkenningar fyrir fegurð og vandað handverk í meira en 1.100 ár. Þegar þú eignast mynt er það ekki bara málmklumpur, heldur brot af sögunni, framleitt af kostgæfni. Þessi viðurkenning tryggir að það er auðvelt að selja myntirnar, því myntir eins og The Sovereign njóta vinsælda víða um heim, ekki síst í Indlandi þar sem þær hafa verið hafðar til gjafa við brúðkaup og fleiri tækifæri svo kynslóðum skiptir. Á undanförnum árum hafa vinsældir hönnunar farið vaxandi, bæði meðal fjárfesta og safnara.


Þar sem litið er á bullion-mynt sem vöru, skiptir „stærðarhagkvæmni“ máli þegar kemur að mynthönnun og framleiðslu. Myntir sem njóta mikilla vinsælda eru framleiddar í miklu stærra upplagi en önnur hönnun sem stundum er aðeins framleidd í stuttan tíma. Af því leiðir að kostnaðurinn við að eignast sama magn af málmi (t.d. 1 únsu gullmynt) verður breytileg eftir mynthönnun, seríu, vinsældum og framboði á viðkomandi mynt.

Premía á mynt

Við kaup á eðalmálmum í hvaða formi sem er, er greidd svokölluð premía. Premían er sá hluti verðsins sem greitt er fyrir vöruna, sem er umfram verðið á málminum sem hún inniheldur. Það krefst bæði tíma, fjármuna og kunnáttu að breyta klumpi af gulli, silfri eða platínu í mynt með margslunginni hönnun. Tíminn og fyrirhöfnin getur verið mismunandi, allt eftir því hver hluturinn er, og því leggst mishá premía á lokaafurðina. Það krefst meiri tíma og kunnáttu að búa til mynt en málmstöng og því eru myntir jafnan dýrari en stangir (þ.e. premían er hærri). Tíminn skiptir líka miklu máli, það er ódýrara að kaupa 100 g gullstöng en 100 x 1 g gullstangir af því að það kostar meiri tíma, fé og fyrirhöfn að framleiða 100 stangir en eina stóra – jafnvel þótt málmurinn sjálfur sé jafn þungur í hvoru tveggja.


Þetta er ástæðan fyrir því að mynt ber jafnan hærri premíu en stangir. Það er vissulega ódýrara að kaupa 1 únsu gullstöng en 1 únsu mynt þótt málmmagnið sé það sama. 



Myntir og stangir eru ávallt á hærri verði við kaup heldur en skráð heimsmarkaðsverð á gulli.

En eins og fram hefur komið eru fjölmargar aðrar ástæður en málmmagnið sem fá fólk til að velja mynt fram yfir stangir.

Myntgeymsla

Annað sem þarf að hafa í huga þegar þú ákveður að fjárfesta í bullion-mynt, er hvernig þú ætlar að geyma fjárfestinguna þannig að hún sé óhult fyrir þjófnaði og/eða skemmdum. Margt fólk velur einfaldlega að fá keyptar myntir afhentar og geyma þær heima, annað hvort í öryggisskáp eða bara faldar einhversstaðar í húsinu þar sem þær þykja öruggar. Þótt sumir vilji fá hlutinn afhentan og sjá um hann sjálfir, finnst öðrum heppilegra að koma honum í geymslu hjá öðrum til að minnka áhættu á þjófnaði eða skemmdum. Söluaðilar eins og Auvesta Edelmettal AG bjóða upp á geymslu í öryggishvelfingu gegn geymslugjaldi. Þegar upp er staðið er það algjörlega undir þér komið hvorn kostinn þú velur. Heimageymsla hefur þann kost að þá er hluturinn aðgengilegur. Hvenær sem þú vilt getur þú skoðað fjárfestinguna þína og handleikið hana. En það er kostnaðarsamt að kaupa sér öryggisskáp og tryggja innihaldið, og sumir vilja síður leggja í þann kostnað að ógleymdum virðisaukaskatti. Ef þú kemur fjárfestingunni í vörslu söluaðila eðalmálma eins og Auvesta, er öryggi hennar tryggt, og að auki nýtur þú þeirra þæginda að geta hvenær sem er tekið hlutinn úr öryggisgeymslunni. Loks getur þú, ef þú vilt selja hlutinn, gert það á þægilegan hátt í gegnum reikning þinn sem er mikið atriði þar sem á t.d. Íslandi þar sem ekki eru margir aðilar sem kaupa eða selja fjárfestingargull. 

Þarf ég að huga að fleiru?

Þótt það geti verið spennandi og gefandi reynsla að ákveða að fjárfesta í bullion-mynt, er að mörgu að hyggja eins og hér hefur komið fram. Þótt huga þurfi að virðisaukaskatti (VSK) þegar valið er á milli gulls, silfurs og platínu, kjósa sumir fjárfestar samsetningu nokkurra málma til að dreifa eignasafni sínu. Eins og rætt var hér að framan, eru eðalmálmarnir hafðir til ýmissa ólíkra nota, sem veldur því að verð þeirra getur þróast á ólíkan hátt. Ef þú dreifir fjárfestingunni, er hún betur varin fyrir verðsveiflum ef verð hækkar á sumum eignum um leið og það lækkar á öðrum. Þegar kemur að þáttum eins og geymslu á mynt, þarft þú að ákveða hvaða aðferð hentar þér. Sumir fjárfestar leggja mikla áherslu á heimageymslu en aðrir kjósa að leggja ábyrgðina á herðar þriðja aðila. Loks er það hönnun og útlit; þú þarft að velja hönnun sem höfðar til þín. Það er nefnilega miklu fleira í spilinu en bara að kaupa dýran málmbút þegar mynt er annars vegar.

Share by: