4. Að fjárfesta í bullion-stöngum

4. Að fjárfesta í bullion-stöngum

Fullt af gullstöngum staflað hver ofan á annan

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk kýs að fjárfesta í bullion-stöngum, en hver er munurinn á þeim og öðrum fjárfestingarkostum í eðalmálmum?


Þegar fólk talar um „bullion“ og eðalmálma eru gullstangir óhjákvæmilega meðal þess fyrsta sem kemur upp í hugann. Töfrar gulls í hvaða formi sem er hafa frá upphafi vega heillað mannskepnuna, en gullstöngin, í bókum og kvikmyndum, hefur orðið að tákni fyrir hina fullkomnu varðveislu auðæfa. Þótt það kunni að virðast fjarlægur draumur að eignast þína eigin gullstöng í Hollywoodstíl, gæti það komið þér á óvart að fjárfesting í stöngum úr hreinu gulli, silfri eða platínu er kannski ekki eins óraunhæf og þú heldur. Þar sem stangir eru fáanlegar í miklu úrvali hvað varðar vigt, útlit og stærð, er það í raun og veru raunhæfur fjárfestingarkostur fyrir flesta að eignast eigin stöng úr eðalmálmi. Stangir eru ein af mörgum leiðum fyrir fjárfesta til að komast í kynni við eðalmálmamarkaðina, og ásamt mynt og stafrænum eðalmálmum njóta þær enn vinsælda.


Það eru skýrar ástæður fyrir því að bullion-stangir heilla enn fólk. Vegna minni hönnunar- og framleiðslukostnaðar fást stangirnar að jafnaði á lægra verði en mynt. Í samanburði við stafræna eðalmálma eru þær líka miklu efnislegri og áþreifanlegri kostur, en sumir fjárfestar kunna vel að meta það að geta handleikið vöruna.


Auðvitað koma margar fleiri ástæður við sögu þegar fólk ákveður að fjárfesta í efnislegum bullion-stöngum og nýta þær til að dreifa eignasafni sínu, en hver er helsti munurinn á þeim og öðrum fjárfestingarkostum í eðalmálmum?

Virðisaukaskattur (VSK) og fjármagnstekjuskattar

Það er mikill munur á skattalegri meðferð á fjárfestingamálmum á Íslandi og flestum löndum Evrópu. 


Á Íslandi er ekki gerður greinamunur á fjárfestingagulli eða t.d. skartgripagulli, silfri eða platínu. Samkvæmt íslenskum skattalögum, hjá einstaklingum, eru þessir málmar flokkaðir sem lausafé og það eru engir fjármagnstekjuskattar af lausafé nema að kaup og sala þess sé gert í hagnaðar eða atvinnuskyni. Skiptir þá engu hvort um mynt eða stangir sé að ræða. 


Hjá fyrirtækjum, þá yrðu þessar eignir eignfærðar á efnahagsreikning á markaðsvirði. Fyrirtæki greiða ekki fjármagnstekjuskatt. Þau greiða tekjuskatt.


Víða í Evrópu, ólíkt því sem á við um bullion-mynt, er söluhagnaður af bullion-stöngum úr gulli, silfri og platínu skattskyldur. Það er vegna þess að fjárfesting í stöngum nýtur ekki sömu verndar og mynt. Við fyrstu sýn virðist þetta vera ókostur í samanburði við myntina, en skattur á söluhagnað er þó ekkert áhyggjuefni fyrir meðalfjárfestinn því hagnaðurinn er yfirleitt innan skattfrelsismarka. 


Á Íslandi bera fjárfestingamálmar 24% virðisaukaskatt alveg eins og skartgripir. Það er enginn munur gerður á eðalmálminnihaldi samkvæmt íslenskum skattyfirvöldum. Ísland er sennilega eina eða a.m.k. eitt af fáum löndum í Evrópu sem gerir ekki þennan greinarmun. Evrópusambandslöndin innheimta ekki virðisaukaskatt á fjárfestingargulli hvort sem um mynt eða stangir er að ræða en á silfri, platínu og palladíum er innheimtur virðisaukaskattur. Gull er eini málmurinn sem er undanþeginn virðisaukaskatti ef það er af tilgreindum hreinleika í formi stanga eða mynta.


Þannig að þegar gull og aðrir eðalmálmar eru keyptir í gegnum vefverslun Gullmarkaðarins þá er alltaf innheimtur virðisaukaskattur þegar afhending er á Íslandi og er hann greiddur við pöntun. Þegar gull sem keypt er í gegnum Auvesta Edelmettal AG þá greiðist virðisaukaskattur við landamæri Íslands, þegar og ef viðkomandi lætur senda sér gullið eða sækir og flytur það sjálfur til landsins.


Víðast erlendis, þótt stangirnar séu frábrugðnar mynt hvað varðar fjármagnstekjuskatt, hefur hvort tveggja sömu stöðu gagnvart virðisaukaskatti (VSK). Það þýðir að kaup á gullstöngum eru ekki virðisaukaskattskyld fyrir einstaklinga sem ekki hafa virðisaukaskattsnúmer, hins vegar eru kaup á bæði silfur- og platínustöngum virðisaukaskattskyld. Af kaupum á silfri og platínu þarf því að greiða venjulegan virðisaukaskatt, í Evrópu sem er misjafn eftir löndum.


Þótt líta megi á virðisaukaskattskyldu á silfri og platínu sem ókost við þessa málma, einkum í samanburði við gull, er á það að líta að verð á silfri og platínu getur hæglega sveiflast um +/- 20% á tiltölulega skömmum tíma. Silfur er talið mun óstöðugri eðalmálmur en gull, hvað verðgildi varðar, svo að verðsveiflurnar vinna stundum upp virðisaukaskattinn sem greiddur var við kaupin.

Sem fyrr er mikilvægt að taka fram að þessar upplýsingar eru ekki tæmandi og eru einungis settar fram til leiðbeiningar. Skattamál eru jafnan flókin og því er best að afla sér frekari leiðbeininga hjá skattayfirvöldum ef vafi leikur á einhverju.

Hvers konar stangir eru í boði?

Auk þess sem bullion-stangir fást bæði úr gulli, silfri og platínu, eru í boði ýmsar stærðir. Gullstangir fást allt niður í 1 g, sem er á stærð við sim-kort í farsíma, og upp í 400 únsur, sem er gullstöng af þeirri gerð sem oft sjást í bíómyndum. Þetta fjölbreytta úrval í stærðum gerir það að verkum að til eru stangir á stóru verðbili sem henta öllum fjárfestum. Stærðaúrvalið í silfri er yfirleitt heldur takmarkaðra. Það er vegna þess að gullið er verðmætara og það borgar sig ekki að framleiða 1 g silfurstöng. Þrátt fyrir það eru silfur- og platínustangir fáanlegar í mörgum stærðum og eru stærstu silfurstangirnar allt upp í 100 únsur.


Þegar kemur að hönnun og útliti, voru bullion-stangir áður fyrr heldur fábreyttar enda gegndu þær því hlutverki að bjóða upp á einfalda leið til að komast yfir mikið magn af eðalmálmum. Á seinni árum hafa þó verið framleiddar stangir með margslunginni hönnun, svipaðri þeirri sem tíðkast á mynt. Þessum stöngum er ætlað að auka fjölbreytni í stöngum og þær höfða ekki einungis til fjárfesta heldur safnara líka.


Að auki eru stangir með skreytingu stundum framleiddar í minna upplagi og fást einungis í takmörkuðu magni. Það getur orðið til þess að endursöluverð þeirra verður hærra en ella, vegna þess hve fáséðar þær eru á eftirmarkaði. Hvað endursöluverð almennt áhrærir, er auðvelt að selja aftur stangir úr hvaða eðalmálmi sem vera skal til hvers þess söluaðila sem kaupir eðalmálma, þar með talið skartgripala og eðalmálmakaupmanna. Eini ókosturinn við stangir í þessu tilliti, samanborið við mynt, er að hver stöng selst í heilu lagi meðan hægt er að selja myntir smám saman.

Hvað kosta stangir?

Þegar litið er á kostnað sem fylgir því að kaupa eðalmálmstangir, ræðst hann venjulega af verði eðalmálmsins sem þær innihalda að viðbættri „premíu“ sem seljandinn tekur. Premía leggst almennt á allar gerðir eðalmálma. En þar sem framleiðslukostnaður stanga er jafnan lægri en mynta, verður premían á stöngum venjulega lægri fyrir sömu þyngd af málmi þegar hann er í formi stanga. Og þar sem það er ódýrara að framleiða eina stærri stöng en margar smærri, verður premían sem bætist við „stundarverð“ eðalmálmsins lægri þegar keyptar eru stærri stangir. Þetta er vegna þess að það er ódýrara að framleiða eina 100 g stöng en hundrað 1 g stangir. Þótt þetta sé öfgakennt dæmi, myndi það sama gilda um kaup á fimm 1 g stöngum samanborið við eina 5 g stöng, þótt það sé á minni skala.

Hvernig geymi ég eðalmálmstangir?

Hvað geymsluna varðar, kjósa margir fjárfestar að taka með sér eðalmálmsmynt og það sama gildir um stangir. Þótt sumir velji að koma kaupum sínum í geymslu hjá þriðja aðila, eins og Auvesta Edelmettal AG eða ef til vill í bankahólfi, kjósa margir að fá eðalmálmana sína afhenta. Fyrir því geta verið margar ástæður, en ef þú ákveður að fá eðalmálmstangirnar þínar afhentar, þarftu að taka afstöðu til ýmissa hluta.


Fyrst og fremst þarft þú að tryggja að það sem þú keyptir sé óhult fyrir þjófnaði eða skemmdum. Ef þú ákveður að kaupa öryggisskáp, eru fáanlegar margar gerðir með mismunandi öryggisstig. Auk þess að veita vernd gegn þjófnaði verja sum heimaöryggishólf fyrir öðrum ógnum, eins og eldi eða vatnsflóði. Öryggisskápur heima getur því líka verið örugg geymsla fyrir mikilvæg skjöl og jafnvel stafræn gögn eins og minnislykla og öryggisafrit tölvu. Ef þessi kostur hljómar álitlega, ráðleggjum við þér að leita til söluaðila sem sérhæfa sig í öryggishólfum fyrir neytendur og fá leiðbeiningar, þeir eru best til þess fallnir að benda þér á þá kosti sem hæfa þínum þörfum.


Ef þér líst ekki á að geyma það sem keypt var heima, eru eins og fyrr var nefnt margir söluaðilar eðalmálma sem bjóða upp á örugga geymslu eðalmálma. Sé þessi kostur tekinn, eru þættir eins og öryggi og trygging boðin fyrir þóknun sem byggist venjulega á verðgildi þess sem geymt er. Ef geymt er hjá vörsluaðila eins og Auvesta Edelmettal AG, er einnig auðveldara að selja fjárfestinguna og yfirleitt er hægt að gera það í gegnum vefaðgang.

Þarf ég að huga að einhverju fleira?

Þegar keyptir eru eðalmálmar í hvaða formi sem er, þarf að taka margar ákvarðanir. Ef við tökum sem dæmi geymslu á eðalmálmstöngum, sem rætt var um hér að framan, þá velja margir þægindin sem fylgja því að koma fjárfestingu sinni fyrir hjá vörsluaðila, en aðrir eru ekki í rónni nema þeir hafi fjárfestinguna í sinni eigin vörslu. Þegar allt kemur til alls er þetta þín ákvörðun, en það er mikilvægt að það sé upplýst ákvörðun sem þú ert sátt(ur) við.

Share by: