6. Hreinleiki málma skýrður

Þegar fjallað er um fjárfestingu í eðalmálmum, hefur þú kannski rekist á merkingar eins og 999.9 gull eða jafnvel 999.5 platína. Gullstangir og myntir eru oft merktar sem 999.9 hreint gull en oft vaknar sú spurning varðandi eðalmálma hvernig þetta hreinleikakerfi er í samanburði við karat-kerfið, sem er þekktara.
Hreinleiki gulls
Gull er unnið úr kopargrýti og úr jarðskorpunni með flóknum efnaferlum. Eins og vænta má, miðast gullverð bæði við hreinleika þess og þyngd. Auk þess sem gull er vinsæll fjárfestingarmálmur, fara um 50% af framleiðslunni í skartgripagerð. Þar að auki er gull oft notað sem iðnaðarmálmur í rafrásaspjöld og rafeindatæki því það er afbragðs rafleiðari. En þótt hreint gull sé í litlum mæli notað í rafeindatæki, er miklu líklegra að maður rekist á skartgripi úr gulli sem hefur verið blandað öðrum málmum til að gera það sterkara og endingarbetra. Ástæðan er sú, fyrir utan að lækka kostnað, að hreint gull er einfaldlega of mjúkt til margra nota, því hringir eða hálsmen úr hreinu gulli myndu trúlega endast illa. Af þessum sökum þarf gull til sumra nota að vera blandað öðrum málmum til að gera það endingarbetra og til að minnka kostnað.
Um fjárfestingargull gegnir öðru máli, en þar er þessu öfugt farið. Myntir og stangir úr fjárfestingagulli eru ekki gerðar til standast mikla notkun því þær eru sjaldan handleiknar eða færðar úr stað. Oftar en ekki eru gullstangir geymdar í öryggishólfum eða öðrum öruggum stað, og einungis hróflað við þeim í kjölfar viðskipta með þær. Þess vegna er fjárfestingagull oft miklu hreinna en það sem haft er til annarra nota.
Alþjóðlegi staðallinn um hreinleika gulls er karat (því má ekki rugla saman við carat-kerfið sem á við eðalsteina). Flestir kannast vel við þetta kerfi því það er notað til að tilgreina hreinleika málms í skartgripum, t.d. 9 karata (9k) gullhringur.
Hvað með fjárfestingagull?
Karat-kerfið er þó ekki notað um gull sem haft er til fjárfestinga. Þar er hreinleikinn oft einungis gefinn til kynna með tölum. Þess vegna er líklegt að á gullstöngum megi sjá röð tölustafa, oftast 999.9 hreint gull. Það er vegna þess að þetta kerfi tilgreinir hreinleika eðalmálmsins í þúsundustu hlutum. Þetta merkir þá að gullstöngin sé 99,99% hreint gull. Með þeim framleiðsluaðferðum sem notaðar eru, er nánast ómögulegt að framleiða 100% hreint gull, svo 999.9 er almennt talið „hreint gull“ á sama hátt og 24k gullskartgripur yrði líka flokkaður sem „hreint gull“.
Þetta hreinleikagildi er ýmist táknað sem 9999, .9999 eða 999.9 og það er stundum kallað „fjögurra níu“-gull þegar rætt er um viðkomandi hlut. Það merkir að um er að ræða hreint gull sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til fjárfestingagulls. Hreinleikastigið sem markaðssamtökin London Bullion Market Association (LBMA) gera kröfu um svo gull sé hæft til fjárfestinga er þó lægra, eða 995.0 þúsundustu hlutar hreint gull, en algengt er að gullstangir hafi hreinleika umfram þetta mark.
Samanburður staðla
Þótt hreinleikastaðallinn og karatkerfið séu hönnuð í ólíkum tilgangi, má tengja kerfin saman, eins og hér var nefnt að 9999 gull jafngildir 24 karötum. Nokkur önnur gildi eru sýnd í töflunni hér að neðan.

Hreinleiki silfurs og platínu
Silfur er geysivinsæll málmur og á hóflegu verði, og það hefur verið notað í nánast öllum menningarsamfélögum. Þegar silfur er unnið úr jörðu finnst það gjarnan í námunda við blý og stundum er það beinlínis aukaafurð við blývinnslu. Áþekkt gulli, er silfur notað á margvíslegan hátt í iðnaði. Það er þá venjulega blandað öðrum málmi til að auka styrk þess, og þá verður kopar oft fyrir valinu. Hreinleiki silfurs er tilgreindur í þúsundustu hlutum, hvort sem um er að ræða skartgripi eða fjárfestingamálm. Í tilviki .925 sterling-silfurs, sem er 92,5% hreint, eru 75 hlutar af hverjum 1000, eða 7,5%, íblöndunarmálmur. Annað vinsælt hreinleikastig er .958, er þá er silfrið 95,8% hreint og íblöndunarmálmurinn þá 4,2%. Fjárfestingasilfur, bæði bullion-myntir og stangir, fást almennt í hreinleikanum 999.9 eða 999, reiknað á sama hátt og gull.
Platína er einnig vinsæll kostur, hvort sem um er að ræða fjárfestingu eða skartgripi. Platína til fjárfestinga er jafnan með hreinleikann 999.5 og það myndu flestir söluaðilar kalla „hreina platínu“. Hreinleikastigið er reiknað á sama hátt og gert er við gull (þúsundustu hlutar) og algengasta hreinleikastig skartgripa úr platínu er 950.