8. Hvað er Gullfesta (Gold Fix)?

Meðal þess fyrsta sem fólk lítur til þegar það kaupir gull, silfur eða platínu er auðvitað verðið. En þeim sem eru að stíga fyrstu skrefin í kaupum á eðalmálmum er ekki alltaf ljóst hvernig og af hverju verðgildið er ákvarðað. Að skilja ferlið að baki verðlagningunni er fyrsta skrefið í átt að árangursríkri fjárfestingu í gulli, silfri eða platínu.
Orðað á einfaldan hátt, er gullfesta (e.
Gold Fix) verðlagningarferli sem er í gangi allan daginn. Það ákvarðar verð á grundvelli kaupa og sölu sem eiga sér stað á markaði á tilteknum degi. Markaðssamtökin The London Bullion Market Association (LBMA) er alþjóðleg bækistöð verðákvörðunar á gulli. Tvisvar á dag, kl. 10:30 og 15:00 að miðtíma Greenwich (GMT), eru verðin opinberlega ákvörðuð.
Hvers vegna er gullfesta notuð?
Gull er enn, í öllum skilningi, hinn upprunalegi alþjóðagjaldmiðill, er útbreiddastur og hefur peningalegt verðgildi um allan heim. Hvort sem þú kaupir efnislegt gull (eins og mynt og stangir) eða kaupir svokallað „pappírsgull“ sem gengur kaupum og sölum á verðbréfamörkuðum, verkar gullfesta sem gagnsætt viðmið sem viðskiptamenn nota til að ákveða verðlagningu sína. Af þeim sökum nýtist þessi fasta verðákvörðun sem alþjóðlega viðurkennd markaðsvísbending um eðalmálma.
Hvernig er ákvörðun tekin?
Í mars 2015 hleyptu markaðssamtökin The London Bullion Market Association af stokkunum uppboðsmarkaði, LBMA Gold Price auction, sem tæknivæddari uppfærslu á hinu hefðbundna fyrirkomulagi. Honum er stýrt af ICA Benchmark Administration (IBA) og verð eru alltaf gefin upp í Bandaríkjadollurum á hverja hreina troyes-únsu, en einnig er hægt að fá uppgefið leiðbeinandi verð í breskum pundum og evrum.
IBA leggur til hugbúnað og aðferðafræði og stýrir einnig og hefur umsjón með gullverðsákvörðuninni. Um er að ræða rafrænt uppboðsferli. Eins og er hafa tólf utanaðkomandi aðilar hlotið faggildingu til að leggja sitt til gullverðs LBMA, þar á meðal Barclays Bank, Goldman Sachs, HSBC og JP Morgan.
Hver vegna sveiflast gullverð?
Þegar LBMA-uppboðið leitast við að ákvarða gullverð með sem nákvæmustum hætti, er litið til ýmissa orsakavalda. Eins og á við um alla markaði, ræðst gullverð mest af framboði og eftirspurn. Þar sem gullmagn í heiminum er takmarkað hafa aukning, samdráttur eða skarpar sveiflur í framboði og eftirspurn áhrif á verðið.
Málefni sem varða efnahagslega eða jafnvel pólitíska óvissu á alþjóðavísu hafa einnig haft sérstaklega mikil áhrif á undanförnum árum. Þegar efnahagsástand er erfitt, eykst traust á gulli (stundum snögglega), þar sem innra verðgildi þess veldur aukinni eftirspurn.
Alþjóðlega gullráðið (World Gold Council) fullyrðir að 60% af gullbirgðum heimsins séu í höndum stjórnvalda í aðeins fimm ríkjum. Seðlabankar eru veigamiklir kaupendur á gullmarkaði, svo gaumgæfilega er fylgst með kaupum þeirra og sölu.
Aðrir lykilþættir sem taka þarf með í reikninginn eru vaxtastig og verðbólga. Þegar vextir eru lágir hækkar jafnan gullverð því ótti við að gjaldmiðlar tapi verðgildi gerir gull að vænlegum kosti.
Ákvarðar LBMA einungis gullverð?
LBMA er ekki einungis þekkt fyrir að ákvarða gullverð heldur eru samtökin einnig ábyrg fyrir fleiri málmum.
- Silfur
Silfurverð LBMA er ákvarðað daglega kl. 12:00 á hádegi. Það er gefið upp í Bandaríkjadollurum á únsu af .9995 hreinum málmi. Uppboðsmarkaðurinn er starfræktur af CME og er undir umsjón Thompson Reuters.
- Platína og palladín
Verð eru fastsett tvisvar á dag, kl. 09:45 og 14:00. Þau eru gefin upp í Bandaríkjadollurum á hverja únsu af .9995 hreinleika og ákvarðanir eru undir sjálfstæðri stjórn LME.