Til að öðlast skýran skilning á hlutfallslegu verðgildi gulls gagnvart silfri, verður þú fyrst að átta þig á gull-silfur hlutfallinu.
Verðgildi gulls og silfurs hefur jafnan risið og hnigið nokkurn veginn í takt í gegnum tíðina; þegar gullverð breytist, fylgir silfurverðið á eftir. Fyrir þá sem fylgjast með gull- og silfurmörkuðum er þetta til hagræðis, því fyrir vikið er tiltölulega einfalt að meta gróflega hlutfallslegt virði hvors málms um sig. En þegar nánar er að gáð getur þetta verið ruglingslegt þegar þú ferð að skilja ólíkt notagildi málmanna á almennari markaði.
Til þess að átta okkur á hlutfallslegu verðgildi gulls miðað við silfur, þurfum við að leita svara við spurningunni hvað gull-silfur hlutfallið er. Hvernig varð það til og hvað getur það sagt okkur um það hvernig ber að skilja verðlagningu.
Í grunninn er hlutfallið útreikningur sem fjárfestar nota til að meta hvenær er besti tíminn til að fjárfesta. Hlutfallið endurspeglar hversu mikið magn (þyngd) af silfri þarf til að kaupa eina únsu af gulli. Til að reikna það út þarf að taka markaðsverð á gulli og deila í það með silfurverðinu. Ef núverandi gullverð er tiltölulega hátt, þýðir það að meira silfur þarf til að kaupa eina únsu af gulli, en þannig hefur það ekki alltaf verið.
Sögulega séð voru það Spánverjar sem héldu silfurverði niðri fyrir tveimur öldum, eftir því sem sumir sérfræðingar segja, í því skyni að viðhalda völdum sínum á heimsvísu. Sumir telja að það hafi skilið eftir arfleifð sem silfur hefur verið að vinna upp síðan.
Stærstan hluta 19. aldar þurfti 14-16 sinnum meira magn af silfri en gulli til að ná sama verðgildinu – sem telst lágt hlutfall. Á 20. öld fór óstöðugleiki að gera vart við sig á mörkuðum. Árið 1938, þegar styrjöld vofði yfir, varð gull-silfur hlutfallið hæst á 20. öld, er það náði 98:1, síðan lækkaði það stórlega næsta áratuginn. Síðan 1978, um sama leyti og dollarinn hætti að vera „gulltryggður“, hefur hlutfallið sveiflast hressilega, á níunda áratugnum hækkaði það jafnt og þétt en gerðist svo heldur ófyrirsjáanlegt, hækkaði og lækkaði milli um 40:1 og allt upp 90:1. Þessi breytileiki endurspeglar ýmsa áhrifaþætti, ekki síst endurmat á silfri sem vöru í samhengi við gull.
Nú á dögum getum við ekki án silfurs verið, í ljósi þess að mikið af tækni okkar yrði gagnslaus án þess. Silfur er málmur sem er nytsamur til afar margra hluta og eftirspurn frá iðnaði hefur sífellt meiri áhrif á það hve fágætt það er. Það er því engin furða að gull-silfur hlutfallið sé sveiflukennt, því vægi þeirra þátta sem hafa áhrif á verðgildi silfurs breytist hratt. Að auki hefur sambland að ótta við verðbólgu, gengisfalli gjaldmiðla, óvissa í hefðbundnum fjárfestingum og ótti við skuldir heimsins orðið til þess að silfurstangir og tengdar eignir þykja nú vænlegur fjárfestingarkostur fyrir fólk sem hefur áhuga á eðalmálmum sem leið til að tryggja framtíðina.
Samkvæmt Goldcorp Inc., einum stærsta gullframleiðanda í heimi, er eitt gramm af silfri fyrir hver 12,5 tonn af jarðvegi, en eitt gramm af gulli fyrir hver 250 tonn. Ef við höfum þetta fyrir satt, að viðbættum öðrum þáttum sem máli skipta í heiminum, mætti búast við því að raunverulegt hlutfall milli gulls og silfurs gæti verðið nær sögulegu meðaltali, kannski í kringum 20:1.
Um leið og við sjáum að silfurverð sveiflast upp og niður í takt við efnahagslega atburði víða um heim, er hluti af þessum óstöðugleika tilkominn vegna þess að minna af því er keypt og selt en af gulli. Verðgildi þess er talið minna og því er markaðurinn umtalsvert minni, en það verður til þess að þegar kringumstæður breytast snögglega, eru áhrifin meiri en ella.
Þegar óvissa er í efnahagsmálum heimsins er engu að síður litið svo á að gull og silfur bjóði upp á meira öryggi. Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir silfri farið fram úr framboðinu, meira að segja sem nam heilum 103 milljónum únsa árið 2013, en það var þriðja árið í röð sem ekki var til nóg silfur til að svara eftirspurn.
Silfur gegnir æ stærra hlutverki í internetinu og í tískusveiflum. Til dæmis hafa fyrirtæki í íþróttatækni nú þróað armbandstæki og snjallsímaöpp sem skrá líkamsstarfsemi eins og hjartslátt, inntöku og brennslu kaloría, auk annarra lífmælitækja til að fylgjast með heilsunni í erli dagsins. Þessi iðnaður einn og sér hefur skapað aukna eftirspurn eftir þessum eðalmálmi, og er þá ónefnt að eftirspurn frá hefðbundnum iðnaði er líkleg til að aukast í takt við hagkerfi sem eru í sókn.
Gull-silfur hlutfallið virðist hátt um þessar mundir, en verð á silfurstöngum og -mynt gæti hækkað umtalsvert í framtíðinni, með breyttum viðhorfum og aukinni eftirspurn sem hafa áhrif á hlutfallið.