1. Uppruni gulls, silfurs og platínu

Nærmynd af gullstyttu af andliti manns

Eðalmálmar hafa verið eftirsóttir í gegnum aldirnar; hvarvetna eru þeir tákn um þjóðfélagsstöðu og auð sem birtast í menningarsamfélögum um allan heim. Í gegnum söguna hafa gull og silfur einnig verið tengd himintunglum. Inkarnir trúðu því að gull væri tár sólarinnar en silfur tár tunglsins. Þessir munaðarfullu málmar eiga sér heillandi sögu sem nær allt til dagsins í dag.

Gullið endingargóða

Efnatákn gulls, Au, er dregið af latneska orðinu aurum, sem merkir ,glóandi dögunʻ. Forngrikkir álitu að gull væri samtenging vatns og sólarljóss, en Egyptar trúðu því að gull væri hold guðanna, sérstaklega sólguðsins Ra, og þeir notuðu það sem gjaldmiðil þegar um 1500 f.Kr.

Eðliseiginleikar gulls gera það eftirsóknarvert; það er þjált en endingargott, það hvorki tærist né fellur á það með aldrinum. Smíðisgripir úr gulli hafa varðveist í þúsundir ára, eins og gullkista Tútankamons, til reiðu að verða uppgötvaðir að nýju og hafðir í hávegum af framtíðarkynslóðum.

Silfrið skíra

Efnatákn silfurs, Ag, er dregið af latneska orðinu argentum sem þýðir grátt eða skínandi. Í þúsundir ára hefur það verið mikils metið sem glæsilegur og dýr málmur. Það var fyrst notað í mynt um 700 f.Kr. og er rómað fyrir gæði, endingu og styrk.

Samkvæmt goðsögnum búa töfrar í silfri sem beisla hreina orku náttúrunnar og veita eigandanum vernd.

Platínan dýrmæta

Efnatáknið fyrir platínu, Pt, er dregið af spænska orðinu platina sem merkir litla silfur. Frumbyggjar Suður-Ameríku þekktu platínu áður en Kólumbus kom þangað og málmurinn barst til Evrópu um 1750.

Platína er gljáandi silfurhvítur málmur og tærist ekki frekar en gull. Hún er hins vegar sjaldgæfari en gull og silfur og merkilegt nokk, grunar sérfræðinga að það sé meiri platínu að finna á tunglinu en hér á jörðu.

Gagnleg jarðefni

Nú á dögum er gull notað til margra hluta, allt frá skartgripagerð og myntsláttu til tannlækninga og flugtækni, og þar sem það er afbragðs rafleiðari, er það víða að finna í nútíma rafeindatækjum.


Silfur er einnig notað í skartgripi og skrautmuni, og það er hefð fyrir því að gefa silfurmuni í fæðingar-, afmælis- og skírnargjafir. Silfur er einnig notað í sólarsellur því það nýtist til þess að umbreyta sólarljósi í nýtanlega orku. Að auki, hafirðu einhvern tíma átt hanska til að nota á síma með snertiskjá, vissirðu að í þeim eru silfurþræðir ofnir inn í fingurgómana?


Það er mikil eftirspurn eftir platínu, ekki einungis til fjárfestinga og í skartgripagerð heldur er hún notuð í ýmsum iðnaði. Samkvæmt Alþjóðlega fjárfestingaráðinu í platínu (World Platinum Investment Council, WPIC) fer reyndar meira en helmingur heimsframleiðslunnar á platínu í dag til framleiðslu á nytjahlutum. Þetta á ekki síst við um bílaiðnaðinn, þar sem platína er notuð við framleiðslu á hvarfakútum og kertum.


Gull, silfur og platína standa því sannarlega undir nafni sem „eðalmálmar“ – tærast ekki en eru líka glæsilegir, framúrskarandi og hreinir. Þetta eru takmarkaðar náttúruauðlindir sem henta til margvíslegra nota, bæði sem skraut, munaðarvara og í hagnýtum tilgangi, og því eru þetta frábærir kostir fyrir þá sem vilja fjárfesta í málmum sem eiga sér merka sögu og bjarta framtíð.