8. Gull borið saman við rafmyntir

8. Gull borið saman við rafmyntir

Maður stendur í dimmum göngum með bitcoin tákn í bakgrunni.

Mikið hefur borið á rafmyntum á undanförnum árum og hafa sumir sem um þær hafa fjallað líkt rafmyntum eins og Bitcoin við gull. En hvað eru rafmyntir og hvernig eru þær í samanburði við gula málminn?


Veldisvöxtur og vaxandi vinsældir Bitcoin og annarra rafmynta á síðustu árum hafa vakið áhuga margra fjárfesta. Þetta hefur orðið til þess að ýmsir áhrifavaldar hafa varpað fram spurningunni hvort rafmyntir, og þá sérstaklega Bitcoin, geti gegnt sama hlutverki og gull í fjárfestingasafni. En þótt ýmislegt sé sameiginlegt með þessu tvennu, ekki síst takmarkað framboð og hlutverk sem valkostur við lögformlega gjaldmiðla, er á því grundvallarmunur sem fjárfestar – og þeir sem hyggja á fjárfestingar – ættu að gaumgæfa.


Ítarleg greining Alþjóðlega gullráðsins leiddi eftirfarandi í ljós:


  • Eftirspurn eftir gulli kemur úr fleiri áttum í samanburði við framboð og eignarhald á rafmyntum, sem er samþjappaðra.
  • Þótt rafmyntir hafi átt þátt í að skila mjög mikilli ávöxtun, hafa þær einnig aukið umtalsvert áhættu í eignasöfnum.
  • Gulli er afar auðvelt að breyta í reiðufé og eignasöfn sem innihalda rafmynt gætu náð betri árangri ef stærri hluti þeirra yrði fjárfestur í gulli.
  • Gull og rafmyntir gegna afar ólíku hlutverki í fjárfestingareignasafni.


Grundvallarmunur á gulli og rafmyntum

1. Tvöfalt eðli gulls

Gull hefur verið viðurkennt sem mikilvæg og áþreifanleg auðlegð og gjaldmiðill í þúsundir ára. Það er ekki einungis í eigu almennra fjárfesta heldur líka stofnanafjárfesta og seðlabanka um allan heim. Notkun þess fer vaxandi í tækni og rafeindaiðnaði og það er afar vinsælt sem efni í skartgripi, sérstaklega í Kína og Indlandi þar sem það hefur sterka menningarlega og trúarlega skírskotun. Þetta tvöfalda eðli gulls, að vera bæði mikils metið sem fjárfesting og sem neysluvara, gerir það frábrugðið öðrum fjárfestingareignum. Það hefur líka oft leitt til góðrar útkomu gula málmsins, bæði á tímum efnahagslegra þrenginga og á hagvaxtartímum.


Á hinn bóginn eru rafmyntir eins og Bitcoin vitaskuld stafrænar (óáþreifanlegar) og eftirspurn eftir þeim er einsleitari, fyrst og fremst til fjárfestinga. Samkvæmt Alþjóðlega gullráðinu getur óstöðugt gengi Bitcoin að undanförnu bent til þess að verðgildið bregðist fyrst og fremst við spákaupmennsku, fremur en viðleitni til að geyma auðlegð til langs tíma.


2. Gull er fágætt náttúrulegt frumefni

Þótt bæði gull og Bitcoin séu takmarkaðar auðlindir, hefur magn gulls sem búið er að vinna úr jörðu aukist um nálægt 1,7% á ári á síðustu 20 árum, en Bitcoin-birgðir aukast um hér um bil 3% á ári.* Að auki hefur rafmyntasviðið stækkað gríðarlega á undanförnum árum og nú eru þúsundir ólíkra rafmynta, auk Bitcoin, boðnar til sölu á netinu.


3. Áhættuvirði (Value-at-Risk) Bitcoin er næstum fimmfalt hærra en gulls

Gengi Bitcoin hefur hækkað mjög á síðustu 20 árum og árið 2020 fjórfaldaðist verðgildið. Þessi mikla verðhækkun kveikti áhuga margra almennra fjárfesta og jafnvel líka sumra stofnanafjárfesta. En mikilli gróðavon fylgir oft mikil áhætta og verðhækkun Bitcon hefur líka fylgt verulegur óstöðugleiki. Á síðustu tveimur árum hefur gengi Bitcoin sveiflast þrefalt meira en S&P 500-hlutabréfavísitalan og 50% meira en gullverð. **


Þar að auki hefur áhættuvirði (Value-at-Risk, VaR) Bitcoin verið töluvert hærra. Það þýðir að í hvaða viku sem er síðustu tvö ár voru 5% líkur á því að fjárfestir tapaði $1.382 fyrir hverja $10.000 sem hann fjárfesti í Bitcoin – en þetta er næstum fimm sinnum meira en áhættuvirði (VaR) gulls. *** Af þessum sökum leggur Alþjóðlega gullráðið til að stærri hlutdeild Bitcoin eða rafmynta í fjárfestingasafni – og þar með aukin áhætta – gefi tilefni til að auka hlut gulls til að ná fram betra jafnvægi og fjölbreytni í fjárfestingasafni.


4. Ekki er enn komin reynsla á Bitcoin sem „örugga höfn“

Stundum hefur það hent að Bitcoin virðist sýna hegðun sem minnir á „örugga höfn“, þar sem rafmyntin virðist stefna í svipaða átt og hefðbundnar „baktryggingar“ eins og gull. Þó er þessi hegðun ekki einhlít. Í mars 2020 féll Bitcoin til dæmis í verði um meira en 40% og hafði í lok mánaðar lækkað um 25%. Aftur á móti féll gull um 8% í mars en náði sér fljótt á strik aftur og hélt svo áfram að hækka í takt við það að fjárfestar héldu áfram að bæta baktryggingum við söfn sín.

Að lokum

Gulli hefur í árþúsundir verið treyst sem tryggri geymslu auðlegðar. Samkvæmt Alþjóðlega gullráðinu hefur það á ýmsum tímabilum skilað ávöxtun sem jafnast á við hlutabréfamarkaðinn og oft hærri. Gull hefur líka í gegnum tíðina staðið sig vel á verðbólgutímum og gullmarkaðurinn er afar kvikur og virtur. Gull hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem leið til að auka fjölbreytni eignasafna og hefur oft og tíðum sýnt verðþróun sem er þvert á almennan markað á tímum efnahagsþrenginga.



Rafmyntamarkaðurinn er enn í þróun og verðsveiflur þar virðast einkum vera knúnar af væntingum fjárfesta um mikla ávöxtun. Bitcoin hefur sýnt miklu meiri óstöðugleika en gull á síðustu tveimur árum og hefur þannig aukið áhættu í fjárfestingareignasöfnum. Alþjóðlega gullráðið leggur til að eignasöfn sem innihalda mikið af Bitcoin – eða öðrum rafmyntum – gætu náð betri ávöxtun með því að auka hlutdeild gulls, sem virkar sem baktrygging gegn áhættu.


Í grundvallaratriðum líta fjárfestar svo á að gull og rafmyntir gegni gerólíkum hlutverkum í fjárfestingareignasöfnum. Könnun Alþjóðlega gullráðsins ári 2019 leiddi í ljós að fjárfestar líta á rafmyntir sem spákaupmennskufjárfestingu og hafa á þeim mætur vegna þess að í þeim felst tækifæri til að ná góðri ávöxtun til skamms tíma. Gull er á hinn bóginn mikils metið vegna þess „strategíska“ hlutverks síns að varðveita auðlegð til lengri tíma, og vegna stöðu þess sem baktryggingar gagnvart áhættusamari fjárfestingarkostum.


* Alþjóðlega gullráðið

** Heimild: Bloomberg, ICE Benchmark

*** Alþjóðlega gullráðið

Share by: