Fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur

Það er mikill munur á skattalegri meðferð á fjárfestingamálmum á Íslandi og flestum löndum Evrópu. 


Á Íslandi er ekki gerður greinamunur á fjárfestingagulli eða t.d. skartgripagulli, silfri eða platínu. Samkvæmt íslenskum skattalögum eru þessir málmar flokkaðir sem lausafé, þegar um einstaklinga er að ræða, og skiptir þá engu hvort um mynt eða stangir sé að ræða. Einstaklingar greiða fjármagnstekjuskatt af hagnaði sem myndast við sölu lausafjár ef lausafé er keypt í hagnaðarskyni en ef ekki er sala lausafjár skattfrjáls. Ef kaup og sala lausafjár er í svo miklu umfangi að um er að ræða atvinnurekstur er hins vegar greiddur almennur tekjuskattur af söluhagnaði en þá er til staðar réttur til frádráttar rekstrarkostnaðar. 

Hjá fyrirtækjum, þá yrðu þessar eignir eignfærðar á efnahagsreikning á markaðsvirði. Fyrirtæki greiða ekki fjármagnstekjuskatt. Þau greiða tekjuskatt fyrirtækja en hafa að sama skapi rétt til frádráttar rekstrarkostnaðar.


Víða erlendis þá eru augljósir kostir þess að  fjárfesta í bullion-mynt er sá að allt sem telst lögmætur gjaldmiðill er undanþegið skatti á söluhagnað fyrir íbúa þess ríkis. 

Fjármagnstekjuskattur  er skattur sem leggst á hvers konar ávinning eða hagnað sem fæst með því að selja eða losa sig við eign. Greiða þarf skattinn af öllum söluhagnaði af hverju því sem skattayfirvöld flokka sem skattskylda eign. Langflestar eignir sem þú gætir kosið að fjárfesta í eða selja falla í þennan flokk. Það getur átt við verðbréf, hlutdeildarskírteini í sjóðum þar með talið í gullsjóðum (ETF), bankainnistæður og  sölu fasteignar sem ekki er þitt aðalheimili. 


Ef þú keyptir t.d. hlutabréf fyrir kr 1.000.000 og seldir þau fyrir kr 1.500.000 er „hagnaðurinn“ upp á kr. 500.000 skattskyldur að teknu tilliti til skattleysismarka ef þau eiga við. 

Líkt og komið hefur fram getur skattlagning vegna sölu einstaklinga á lausafé hér á landi flokkast í þrennt, þ.e.a.s. skattfrjáls sala (0%), sala sem myndar stofn til fjármagnstekjuskatts (22%) og sala sem telst hluti atvinnurekstrar (allt að 46% með rétti til frádráttar rekstrarkostnaðar). Hver sá sem fjárfestir verður að taka afstöðu til þess undir hvaða flokk hann fellur m.t.t. tilgangs með kaupum, umfangi o.fl. atriða. Í vafatilvikum væri rétt að óska eftir ráðgjöf eða leiðbeiningum frá skattyfirvöldum. 

Share by: