World Gold Council

World Gold Council

Um Alþjóða gullráðið

Alþjóða gullráðið (The World Gold Council) eru markaðsþróunarsamtök gullgreinarinnar. Tilgangur samtakanna er að örva og viðhalda eftirspurn eftir gulli, veita greininni forystu og að vera fremst í sérfræðiþekkingu á gullmarkaðnum. Alþjóða gullráðið þróar viðskiptalausnir baktryggðar í gulli, þjónustu og vörur sem byggjast á yfirburðaþekkingu á markaðnum, og vinna með fjölda samstarfsaðila að því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Starfsemi Aljóða gullráðsins hefur valdið grundvallarbreytingum á eftirspurn eftir gulli á ólíkum geirum markaðarins.


Alþjóða gullráðið gefur innsýn í alþjóðlega gullmarkaði, sem stuðlar að auknum skilningi fólks á eiginleikum gulls til að varðveita auðlegð og hlutverk þess í því að mæta félagslegum og umhverfislegum þörfum samfélagsins.


Alþjóða gullráðið er með bækistöð í Bretlandi en starfar einnig í Indlandi, Kína, Singapúr og Bandaríkjunum og meðal aðila að ráðinu eru leiðandi gullnámufyrirtæki á heimsvísu og þau sem framsæknust eru.

Nánari upplýsingar fást hjá

World Gold Council

15 Fetter Lane

London

EC4A 1BW

United Kingdom

T +44 20 7826 4700

E info@gold.org

www.gold.org

Reglur um smásölufjárfestingu í gulli 

Arcarius ehf./GULLMARKAÐURINN, hefur ákveðið að fylgja gæðastöðlum Alþjóða gullráðsins (The World Gold Council” um sölu í gegnum vefverslun Gullmarkaðarins og umboðssölu fyrir Auvesta Edelmettal AG.

Við teljum að þar sem við erum fyrst á íslenska markaðinum til að bjóða almenningi að spara og eignast fjárfestingargull, silfur, platínu og palladín, að við berum ákveðna ábyrgð og ætlum því að stunda okkar starf samkvæmt hæstu viðurkenndu gæðastöðlum sem þekkjast í heiminum. 

Formálsorð Alþjóða gullráðsins

Undanfarna tvo áratugi hefur eftirspurn eftir gulli í fjárfestingarskyni farið vaxandi, árleg aukning hefur verið um 15% að meðaltali síðan 2001. Eins og staðan er í dag eiga smásölufjárfestar nálægt 40 þúsund tonnum af gulli, að verðmæti u.þ.b. 2 billjónir bandaríkjadala. Áður fyrr snerist fjárfestingamarkaðurinn um gullstangir, mynt og skartgripi. Nú á dögum eru margar leiðir til að fjárfesta í gulli, þar á meðal verðbréfasjóðir sem skráðir eru í kauphöllum og lúta reglum þeirra. Yfirgnæfandi meirihluti smásjölufjárfestinga í gulli er þó í vörum sem lúta engu regluverki, þar á meðal hefðbundnum gullstöngum, mynt og fjárfestingarskartgripum, auk safnaramyntar, sparnaðar- og lífeyrissparnaðarleiða sem byggjast á gulli og stafræns gulls (e. tokenised gold).



Þótt vörur eins og gull-verðbréf (ETF) lúti reglum fjármálamarkaðarins, á það ekki við um marga aðra gullfjárfestingarkosti. Víðtæk neytendakönnum á vegum Alþjóða gullráðsins, sem náði til 18.000 þátttakenda um allan heim, varpar ljósi á þetta mál. Hún sýndi fram á næstum helmingur þeirra sem höfðu hug á smásölufjárfestingu í gulli nefndu skort á trausti sem hindrun fyrir kaupum. Við þessu er hægt að bregðast og það þarf að gera.


Alþjóða gullráðið starfar með ríkisstjórnum, alþjóðastofnunum og stefnumótandi aðilum að því að þróa leiðir til ryðja hindrunum úr vegi og bæta aðgengi að gulli.

Árþúsundum saman hefur gull verið mikils metið í menningarsamfélögum víða um heim sem leið til að safna og varðveita auðæfi.

Alþjóða gullráðið þróar alþjóðlega viðurkennda staðla sem stuðla að skýrleika og samræmi þar sem það skortir og styrkir traust í gegnum alla virðiskeðju gulls. Í krafti þessarar reynslu og sérþekkingar höfum við sett fram reglur fyrir smásölumarkað með gull, Reglur um smásölu fjárfestingu í gulli. Reglunum er ætlað að auka kröfur til söluaðila á markaði og hvetja smásölufjárfesta til að setja traust sitt á gull. Aukið traust ætti að vera bæði viðskiptavinum og söluaðilum í hag, skapa verðmæti og viðhalda eftirspurn á öllum stigum gullbransans.


Reglurnar voru þróaðar í nánu samráði við hagsmunahafa í bransanum. Þegar frá líður verða þær styrktar með nákvæmari leiðbeiningum um innleiðslu, einnig í samvinnu við lykilaðila í iðnaðinum. Við álítum að reglurnar verði mikilvægt framfaraskref í viðleitni okkar til að byggja upp traust smásölufjárfesta.


Reglurnar munu þó einungis skila varanlegum árangri ef aðilar í bransanum taka þær til sín. Í þeim anda munum við vinna með bransanum til að hvetja til þess að reglunum verði fylgt á alþjóðavísu. Réttlætingin á viðleitni okkar er einföld. Smásala á gulli getur því aðeins náð að blómstra að hún njóti trausts fjárfesta. Upptaka reglnanna og innleiðing bestu starfsvenja eru lykillinn að því að styrkja þetta traust.

Inngangur

Fyrir smásölufjárfesta er gull mikilvæg leið til að varðveita auðlegð. Við áætlum að smásölufjárfesting í gulli í formi gullstanga, myntar og safnaramyntar nemi meira en 2 billjónum dollara, og að árleg eftirspurn nemi um 40 milljörðum dollara árið 2019. Ef skartgripir keyptir í fjárfestingaskyni væru taldir með, myndi það hækka þessar tölur umtalsvert. 

Vöruúrvalið sem í boði er sér til þess að gull getur svarað þörfum margvíslegra fjárfesta.


Sumir fjárfestar kjósa að geyma gull í eigin vörslu, aðrir velja að geyma gull í öryggishvelfingum fagaðila og afhenda það og fá afhent eftir þörfum. Á sumum mörkuðum eru gullskartgripir fastir í sessi sem fjárfesting. Á öðrum eru vörur eins og gullsparnaðaráætlanir vinsælar, m.a. vegna þess að þar eru mörk  lágmarksfjárfestingar lág.


Hvarvetna í fjárfestingarlandslaginu blasir þó við einn grundvallarmunur. Á meðan gull-bréf (ETF) flokkast undir verðbréf og lúta því ströngum reglum, eru önnur form gullfjárfestingar að mestu utan við allt regluverk.


Gull er einstakur eignaflokkur, mikils metinn af fjárfestum allt frá seðlabönkum til einstaklinga. Það er afar auðvelt að koma því í verð en um leið er það sjaldgæft. Það felur ekki í sér skuldbindingu og er keypt jöfnum höndum sem lúxusvara og sem fjárfesting. Vegna þessara eiginleika getur gull gegnt grundvallarhluverki í fjárfestingasafni, skilað langtímaávöxtun, dregið úr tapi á erfiðum tímum, stutt við seljanleika og bætt heildarárangur.


Þó er nauðsynlegt að litið sé á þessar vörur sem traustar og öruggar, eigi þær að styrkja tiltrú fjárfesta, uppfylla möguleika þeirra og auka árlega eftirspurn umfram þá sem nú er. Þess vegna vildi Alþjóða gullráðið kosta kapps um að setja reglur um smásölufjárfestingamarkaðinn. Reglur um smásölufjárfestingu í gulli eru afrakstur þeirrar vinnu, þróaðar í nánu samstarfi við haghafa í bransanum, einkum söluaðila ólíkra vöruflokka og af ólíkum svæðum heims. Skilvirk útbreiðsla og innleiðing reglnanna getur og ætti að auka öryggi, efla traust og stuðla að þróun gullfjárfestingarkosta sem svara þörfum ólíkra fjárfesta og ryðja burt hindrunum fyrir gulleign. Þetta ætti síðan að knýja eftirspurn eftir bæði rótgrónum og nýjum kostum í gullfjárfestingu, til hagsbóta fyrir fjárfesta og bransann.


Gildissvið reglnanna

Reglur um smásölufjárfestingu í gulli („Reglurnar“) beinast fyrst og fremst að söluaðilum fjárfestingarkosta í gulli sem standa utan regluverks, til að hvetja til bestu starfsvenja, svo viðskiptavinir öðlist tiltrú á þessum mikilvæga markaðsgeira.

Reglurnar eiga að ná yfir eftirfarandi vöruflokka:

Gullskartgripir til fjárfestinga

Á mörgum mörkuðum, eins og Indlandi, Kína og Tyrklandi, gegna gullskartgripir mikilvægu hlutverki sem fjárfesting. Gullskartgripir til fjárfestingar einkennast af háu hreinleikastigi og því koma gullhúðaðir gripir og þvíumlíkt ekki til greina. Hreinleikinn er allt frá 21 karati og upp í gull sem er 999,9 að hreinleika, en það fer eftir því um hvaða markað er að ræða. Mikilvægt er að athuga að verð á gullskartgripum til fjárfestingar ræðst fyrst og fremst af gullinnihaldi þeirra, svo fjárfestar ættu að geta selt þá fyrir svipað eða hærra verð en málminnihaldið segir til um.

Bullion-gullstangir og mynt

Bullion-gull býðst í formi stanga og myntar. Verðgildi bullion-gulls ræðst af verðgildi gullsins sem það inniheldur. Bullion-gull er einnig nefnt fjárfestingargull í þrengsta skilningi orðsins. Í sumum löndum er „fjárfestingagull“ skilgreint nánar út frá hreinleika og formi.


Í Evrópusambandinu er fjárfestingagull skilgreint sem gullstangir með 99,5% hreinleika eða meira. Gullmyntir þurfa að uppfylla ýmsar kröfur, svo sem hreinleika upp á a.m.k. 90% og að vera eða hafa verið gildur gjaldmiðill.

Safnaramynt og aðrir söfnunargripir

Safnaramyntir teljast ekki til bullion-myntar. Þær eru oft taldir hafa viðbótarverðgildi umfram verðgildi eðalmálmanna sem þær innihalda, í krafti fágætis eða hönnunar. Safnaramyntum svipar til fjárfestingar í listaverkum og krefjast viðbótarsérþekkingar af fjárfestum. Þeir sem fjárfesta í safnaramyntum taka öðruvísi/meiri áhættu en þeir sem fjárfesta í bullion-gulli. Þrátt fyrir þennan mun, versla margir eðalmálmakaupmenn með safnaramyntir, sem njóta vinsælda hjá ákveðnum hópum viðskiptavina.

Gullvörur með umsjón (e. managed gold products)

Gullvörur með umsjón byggjast á gulli í öryggisgeymslu, ráðstöfuðu eða sameiginlega ráðstöfuðu, sem er geymt í öryggishvelfingu fagaðila fyrir hönd fjárfesta. Þetta svarar þörfum fjárfesta sem vilja beint eignarhald á gulli og tengsl við gullverð, án þess að vilja fá eign sína afhenta. Meðal afbrigða af þessum vöruflokki eru gull-sparnaðaráætlanir – þar sem bætt er jafnt og þétt við eignarhlutinn – og stafrænt gull (tokenised gold) þar sem eignarhaldið er fólgið í stafrænum skírteinum (e. tokens) í bálkakeðju.


Gulltryggð verðbréf sem lúta kauphallarreglum, eins og ETF, liggja utan gildissviðs þessara reglna. Það sama á við um aðra fjárfestingargerninga í gulli sem lúta markaðsreglum, svo sem vörur sem byggja á skuldsetningu eða vörur sem ekki er beint að smásölufjárfestum. Allar þær vörur sem þessar reglur taka  til eru fáanlegar í smásöluverslunum eða á netinu. Reglurnar geta  þó almennt séð átt við allar dreifingarleiðir.


Ýmis mál sem varða starfsemi og orðspor fáeinna söluaðila gullfjárfestinga í smásölu hafa skaðað traust neytenda, og þar með alls bransans í víðara samhengi. Vandamál sem upp hafa komið hafa einnig orðið tilefni viðvarana frá eftirlitsaðilum og neytendasamtökum í ákveðnum löndum.

Reglur um smásölufjárfestingu í gulli

Regla 1 – Sanngirni og heiðarleiki

Söluaðili verður að koma fram við viðskiptavini af sanngirni og heiðarleika, allt frá upplýsingagjöf og þjónustu til uppgjörs.


Sanngjörn markaðssetning

1.1.     Setjið tilboð til viðskiptavina fram á skýran og sanngjarnan hátt með því að draga fram helstu eiginleika vörunnar, þar með talið varúð og hugsanlega áhættu. Forðist að beita viðskiptavini þrýstingi eða beita brögðum til að hafa áhrif á þá.


Fræðsla og stuðningur

1.2.     Veitið viðskiptavinum viðeigandi fræðslu og þjálfum um vöruna eða þjónustuna, og um gull sem eignaflokk almennt séð. Verið tiltæk fyrir viðskiptavininn og bjóðið honum stuðning ef á þarf að halda.


Sanngjarnt verð og þóknanir

1.3.     Verðleggið af sanngirni og gætið þess að allar þóknanir séu viðeigandi. Gefið viðskiptavinum nægar upplýsingar til að hann geti skilið og metið verðlagningu með fullnægjandi hætti.


Sanngjörn sala og uppgjör

1.4.     Veitið viðskiptavinum bestu kjör sem unnt er hvað varðar seljanleika og verð. Verið skýr í framsetningu um uppgjör, greiðslufrest og skilmála. Lágmarkið áhættu viðskiptavinarins.



Regla 2 – Gagnsæi

Söluaðili þarf að gæta að gagnsæi hvað varðar verð og skilmála og leggja fram mikilvægar upplýsingar um vöruna. 


Gagnsæi um þóknanir og skilmála

2.1. Leggðu fram skýrar upplýsingar um þóknanir, skilmála og skilyrði, svo viðskiptavinir geti tekið upplýsta ákvörðun um fjárfestingu. Upplýsingarnar skulu fela í sér sundurliðun þóknana, grunnverð og söluverð og réttindi fjárfestis.


Opinská upplýsingagjöf

2.2. Greinið viðskiptavinum frá mikilvægum upplýsingum um fyrirtækið, framtíðarhorfur og aðra hagaðila, svo sem veitendur þjónustu. Skýrið út hvers konar fyrirtæki þetta er. Veitið m.a. upplýsingar um lykilstarfsfólk og bendið á mikilvæg öryggisatriði þar sem það á við.



Regla 3 – Vernd eigna viðskiptavinar

Söluaðili verður að tryggja að gullbirgðir viðskiptavina og aðrar eignir sem teknar eru í vörslu fyrir hans hönd, þ.á.m. reiðufé, sé verndað með fullnægjandi hætti.


Varðveisla eigna viðskiptavinar 

3.1. Verjið allar eignir sem teknar eru í vörslu fyrir hönd viðskiptavina. Þetta á við um fjárfestingargull sem búið er að kaupa en ekki búið að sækja eða afhenda. Það á við um gull sem verið er að senda til viðskiptavina. Og það á við reiðufé sem geymt er fyrir viðskiptavini áður en kaup eða sala á sér stað, meðan á þeim stendur eða eftir þau.


Tryggingar

3.2. Gangið frá hæfilegum tryggingum vegna rekstrar og gullbirgða til að verja viðskiptavini beint og óbeint. Þetta er sérlega mikilvægt þegar eignir viðskiptavina, eins og gull eða reiðufé, eru í vörslu söluaðila. Það er einnig mikilvægt að kaupa tryggingar til að geta mætt hugsanlegum kröfum sem kynnu að falla á fyrirtækið.



Regla 4 – Ábyrgð á rekjanleika gulls

Söluaðili verður að geta rakið uppruna gulls, sem er heiðarlega aflað, til traustra birgja og hafa í huga viðmið sem varða umhverfismál, félagsmál og stjórnarhætti (ESG).


Heiðarlega aflað gull

4.1. Kaupið aðeins og seljið hágæða- rekjanlega vöru sem viðskiptavinir og aðrir hagaðilar geta sannreynt að er heiðarlega aflað.

Traustir birgjar

4.2. Gerið áreiðanleikakönnun á gullbirgjum og fylgist með þeim til að tryggja heiðarleika þeirra og að þeim sé alltaf treystandi.

Viðmið um umhverfismál, samfélagsmál og stjórnarhætti

4.3. Farið yfir skilríki um umhverfismál, félagsmál og stjórnarhætti varðandi vörur og birgja skv. gildandi ESG-stöðlum.



Regla 5 – Fylgni við reglur

Söluaðili verður að fylgja öllum viðeigandi reglugerðum og landslögum.


Reglur um raunverulega eigendur og varnir gegn peningaþvætti

5.1. Fylgið alþjóðlegum og svæðisbundnum reglum með því að hindra, bera kennsl á og tilkynna athæfi sem fellur undir peningaþvætti. Viðhafið rækilegt eftirlit og regluvörslu. Safnið og haldið til haga gögnum um viðskiptavini eins og tilefni er til.

Fylgni við reglugerðir og landslög

5.2. Fylgið öllum viðbótar reglugerðum og lögum á öllum þeim mörkuðum sem þjónað er, svo sem um neytendavernd, skatta, fjármálaþjónustu, peningaþvætti og vörnum gegn fjármögnun hryðjuverka.



Regla 6 – Viðskiptaleg fyrirhyggja

Söluaðili má ekki taka óhóflega áhættu og ætti að vera búinn undir ýmis áföll, þar með talið að fyrirtækið þurfi að hætta starfsemi.


Nægilegt fjármagn

6.1. Fylgist með og tryggið að fyrir hendi sé nægilegt fjármagn til að mæta hvers konar skuldbindingum, sérstaklega hvað varðar kröfur frá viðskiptavinum. Fjármögnun þarf að fela í sér varasjóði til að bregðast við óvæntum atburðum.


Takmörkuð áhætta

6.2. Takmarkið áhættu, eins og þá sem kann að fylgja gull-verðbréfaeign án baktryggingar eða erlendri gjaldeyriseign, þannig að óhagstæðar aðstæður ógni ekki eignum eða kröfum viðskiptavina eða áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins.


Viðbúnaður við rekstrarstöðvun

6.3. Búið ykkur undir sviðsmyndir sem fela í sér að fyrirtækið þurfi að hætta rekstri, þar með talið að því verði úthýst af markaði eða að reksturinn fari í þrot. Höfuðmarkmiðið er að forðast eða lágmarka neikvæðar afleiðingar fyrir viðskiptavini.



Regla 7 – Fagmennska í rekstri

Söluaðili verður að reka starfsemi sína af kunnáttu, kostgæfni og iðni, og stýra helstu áhættuþáttum.


Traust áhættustýring

7.1. Berið kennsl á helstu áhættuþætti fyrir fyrirtækið og viðskiptavini og stýrið þeim með viðvarandi hætti. Innleiðið fullnægjandi aðgerðir til að draga úr áhættu.

 

Efnislegt öryggi

7.2. Tryggið fullnægjandi efnislega vernd eigna. Auk öruggrar vörslu verðmæta, nær þetta til efnislegrar verndar tölvukerfa, sem og viðkvæmra upplýsinga eins og gagna um viðskiptavini.


Gagnaöryggi

7.3. Fjáfestið í fullnægjandi tölvukerfum og hugbúnaði svo að viðkvæm gögn séu varin. Innleiðið bestu starfsvenjur í netöryggi og verið viðbúin tölvutengdum áföllum, þ.á m. kerfisbilunum.


Útvistun

7.4. Veljið þjónustuaðila og verktaka af kostgæfni og fylgist náið með þeim. Veitið viðskiptavinum upplýsingar um mikilvæga veitendur þjónustu, svo sem þá sem starfrækja öryggisgeymslur, ef starfsemi þeirra getur haft veruleg áhrif á upplifun viðskiptavinnanna eða leitt til áhættu.

Goldhub

Alþjóða gullráðið býður upp á reglubundnar markaðsupplýsingar og greiningar ókeypis.

Við hjá Gullmarkaðinum mælum með að þú skráir þig hér: https://www.gold.org/goldhub

Share by: